Forval Héraðslistans

Það eru 20 manns sem taka þátt í opnu forvali Héraðslistans sem haldið verður 25-27 mars.  Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í eitt af þremur efstu sætunum og er tilbúinn að leiða listann.

Héraðslistinn hefur átt þrjá menn í bæjarstjórn þetta kjörtímabil og er í meirihluta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Bæjarfulltrúar listans,  sem voru kosnir í síðustu kosningum, gefa ekki á kost á sér aftur og því ljóst að um mikla endurnýjun verður að ræða.  Ég tel mikilvægt að í bæjarstjórn sé fjölbreyttur hópur fólks, með mismunandi bakgrunn og reynslu.  Mín reynsla er úr atvinnulífinu í kringum upplýsingatækni og nýsköpun.

Það eru ýmis mál sem brenna á bæjarbúum fyrir þessar kosningar, en líklega ekkert jafnmikið og fjármálin og staða sveitarfélagsins.  Sveitarfélagið fór ekki varhluta af hruninu og verkefnin sem bíða nýrra bæjarfulltrúa á margan hátt óspennandi, því við viljum jú vera að byggja upp en ekki þurfa að skera niður.  Ýmislegt hefur áunnist á núliðnum vetri við að mæta þessu breytta umhverfi og rétt að benda á fjárhagsáætlun fyrir árið 2010. Sitt sýnist svo hverjum um hvernig og hvar er skorið niður. Ekki ætla ég að þykjast vera með töfralausnir varðandi fjármál sveitarfélagsins,  veit hinsvegar að í þessu felast erfið og krefjandi verkefni fyrir nýja bæjarfulltrúa. 

Atvinnumálin er sá málaflokkur sem er mér hvað hugleiknastur.  Í þeim efnum finnst mér mikilvægast að hlúa að þeim fyrirtækjum og þekkingu sem þegar er til staðar á Fljótsdalshéraði.  Ég tel að samvinna fyrirtækja og miðlun þekkingar og reynsla þeirra í milli sé mjög mikilvægur þáttur í að byggja upp atvinnu og treysta grunn fyrirtækja.  Sú ráðstöfun að ráða Atvinnumálafulltrúa til starfa til sveitarfélagsins, tel ég hafa verið skynsamlega og mín skoðun að slíkur tengiliður þurfi ætíð að vera til staðar á vegum sveitafélagsins.  Tengsl stjórnsýslu og atvinnulífsins þurfa að vera að vera gagnvirk.

Aukið samstarf milli stóru sveitarfélaganna á Austurlandi er mér einnig mjög hugleikið.  Reyndar er ýmis samvinna í gangi nú þegar sem gengur vel og því bara spurning um að halda áfram á þeirri braut.  Ég vil að stærri sveitarfélögin stuðli að því að myndaður verði vettvangur sem skoði mögulega snertifleti á verkefnum, þar sem hægt er að samnýta krafta og þekkingu. 

Ég vil bæta íbúalýðræði með milliliðalausu aðgengi að kjörnum fulltrúum með föstum viðtalstímum. Ennfremur að  nýta upplýsingatækni enn frekar  til að bæta þjónustu við íbúa með gagnkvæmri upplýsingagjöf, íbúagátt á vefnum er mikilvægt skref í þessu ferli.

Ég geri mér grein fyrir að verkefnin eru ærin fyrir nýtt fólk á vettvangi bæjarmála og líklega sjaldan verið jafn erfið.  Ég er tilbúin að leggja mig fram og takast á við þessi verkefni og mun vinna þau af heilindum og áræðni.

Ef þið viljið koma á mig spurningum og ábendingum þá er hægt að senda mér tölvupóst á tjorvi@austurnet.is. 

Nánar um forval Héraðslistans á vefsíðu samtakanna.