Af vesturförum

Hér á ég ennþá þetta fína bloggsvæði og liðið næstum ár síðan það var uppfært síðast. Margt hefur gerst á þessum tíma sem vert væri að dokumentara. Í ljósi þess að ég skrifa hér pistil sirka einu sinni á ári þá er spurning hvaða efnistök maður velur.

Bothell

Líklega við hæfi að segja frá því að 4/6 af fjölskyldunni flutti til Bandaríkjanna í lok febrúar, nánar tiltekið í Bothell í Washington fylki. Bothell er bæjarhluti á Seattle svæðinu, rétt eins og Bellavue og Redmond sem kannski fleiri þekkja af þessu svæði, en Bothell er aðeins norðar. ( Hægt að smella á myndina til að sjá nánar )

Home

Ástæðan fyrir vali á þessu hverfi er fyrst og fremst skólarnir sem krakkarnir ganga í, Bothell High Scool og Skyview Junior High sem báðir eru með hæsta mögulega skor (10) fyrir public skóla. Húsnæðisverð í Bothell er líka viðráðanlegra en fyrir sunnan okkur, en fyrir vikið þá er húsið sem við búum í svolítið út úr. Það er stutt í flesta þjónustu en þurfum þó alltaf að keyra til að sækja hana. ( Hægt að smella á myndina til að sjá nánar )

Ég færði skrifborðið mitt frá Egilsstöðum og til Bothell og er að sinna sömu vinnu og heima, er bara nær viðskiptavinunum. Ég er með H1B visa í gegnum SAGlobal sem er einn af eigendum AXnorth, þannig að hérna úti er ég starfsmaður SAGlobal. Kristbjörg er með Visa í umsóknarferli í gegnum SAGlobal líka. Þessa dagana er hún í þjálfun til ráðgjafa í Dynamics AX og er búin að vera mikið á ferðalögum. Viku í New Jersey, viku í Cleveland Ohio og verður svo 3 vikur samfleitt í Fargo í North Dakota.

Isar er í Skyview Junior High school og æfir svo fótbolta með FC Alliance. Embla er í Bothell High, æfir söng hjá henni Kelly Ash niður í Seattle. Þeim líður vel í skólanum og óhætt að segja að skorið sem skólarnir eru með hafi staðið undir væntingum.

Tara Ösp flutti til Danmerkur þar sem hún nemur margmiðlun við KEA í Kaupmannahöfn. Ísold Birta býr svo hjá pabba sínum á Egilsstöðum ( er reyndar í heimsókn hjá mömmu sinni þegar þetta er skrifað ), þannig að fjölskyldan er dreifð um allan heim og Skype því góður vinur þessa dagana.

Ég hef mikið verið spurður út í veðurfar, enda Seattle þekkt fyrir mikla rigningu. Ég get bara sagt að veðrið hérna er fullkomið fyrir mig, frá því ég kom hérna í lok janúar hefur nánast alltaf verið gott veður. Það hefur vissulega rignt, en mun minna og sjaldnar en ég er vanur frá Íslandi. Reyndar er talað um að veturinn hafi verið mjög góður, þannig að ég hitti kannski bara vel á hvað það varðar.

Látum gott heita í bili, sjáum hvort sama bið verður eftir næstu færslu.