Borgarstjórinn í Vatnsmýrinni

Alveg er með ólíkindum þessi borgarstjórn sem situr við völd. Haldið saman af borgarstjóra einsmannsflokksins. Sjálfstæðismenn þurfa hafa sig alla við að leiðrétta orðgjálfur hans um stór málefni, því hann heldur einatt sínum skoðunum fyrst á lofti, áður en hann flettir upp í málefnasamnings-einblöðungnum. Magnað hvað upptalning á A-4 blaði getur vafist fyrir þeim.

Ég horfði á Dag og Hönnu Birnu í kastljósinu áðan og það var hjákátlegt að horfa upp á Hönnu Birnu reyna að leiðrétta og leggja útaf orðum borgastjórans. Það kemur svo reyndar í ljós að hún og Dagur eru svo mikið sammála um framgöngu þessa Vatnsmýra máls, sem er reyndar hið versta mál.
Því þrátt fyrir að borgastjórinn, tali engan vegin í takt við aðra í hans meirhluta, þá er hann einn um að reyna að verja flugvöllin þar sem hann er og þar af leiðandi er hann bandamaður landsbyggðarinnar. Og er það vel. En það er hinsvegar spurning hvort hann skemmir ekki frekar en hjálpar þeirri skoðun, með ótrúverðugleika sínum sem borgarstjóri. Ég hef allavega miklar efasemdir um hann, þó eflaust sé hann vænsti maður.