Ísland með augum brottflutts

Fljótlega eftir að Covid afléttingar tóku gildi á Íslandi þá stefndi fjölskyldan hér í Seattle sveitinni að því að koma til Íslands í heimsókn. Var það svo planað í áföngum og sett upp þannig að öll fjölskyldan yrði stödd á Íslandi á sama tíma í afmælisteiti á Borgarfirði Eystri til heiðurs minnar heittelskuðu. Ég sjálfur var í 5 vikur á Íslandi sem flestum var þó varið í vinnu sem háð var bandarísku tímabelti. Náði einni góðri viku með fjölskyldunni og vinum sem var ómetanlegt.

Það sem ég upplifði á þessum tíma er að mér fannst í fyrsta skipti, ég svolítið vera eins og útlendingur í eigin landi. Skrítinn og jafnframt óþægileg tilfinning sem ég hef ekki alveg náð utan um hversvegna er sprottin. Ég náði samt að samsvara mig við orkuna úr íslenskri náttúru og njóta hennar í botn.

Við hjónin tókum ferðamanninn í okkar stutta fríi saman og heimsóttum nokkra þekkta ferðamannastaði. Borgafjörður Eystri, Stuðlagil, Vök, Jökulsárlón, Fjallsaárlón, Skaftafell, Reynisfjara, Skógarfoss, Seljalandsfoss, Reykjadalur, Stykkishólmur, svo eitthvað sé nefnt. Mikið var af ferðamönnum allstaðar, enda bara rétt eftir síðust Covid takmarkanir svo þeir voru enn að klára sínar ferðir. Það sem stóð upp úr í þessu ferðalagi er hversu ótrúlega flott landið okkar er. Verandi umvafinn endalausum skógum og borgarumferð hér í Washington fylki, þá kannski upplifir maður það sterkar því andstæðurnar eru miklar. Það er magnað að sjá hversu þjónustustigið hefur aukist allstaðar, sem sés í merktum stígum, þjónustuhúsum og afmörkuðum bílastæðum.

Reykjavík sjálf er líka mögnuð og hefur breyst svo mikið síðustu 7 árin og engin furða að ferðamenn elski hana sem áfangastað.

Vonandi nær þessi Covid árás einhverju viðráðanlegu jafnvægi fljótlega svo ferðamenn geti haldið áfram að njóta Íslands, sem svo sannarlega er einstakt.