Af gefnu tilefni

Vegna ítrekaðra spurninga um oddvitasæti Héraðslistans vil ég láta eftirfarandi upplýsingar koma fram.

Framboðslisti Héraðslistans var samþykktur á félagsfundi 20. apríl.  Það var uppstillinganefnd listans sem lagði fram tillögur að uppstillingu og tók hún mið af niðustöðu í opnu forvali sem fram fór 27. mars.  Nokkrar breytingar voru gerðar á listanum í meðförum uppstillingarnefndar, en þær breytingar voru gerðar í fullu samráði við frambjóðendur og af þeirra frumkvæði. 

Þegar ákveðið var að fara í forval þá lá fyrir að það yrði mikil endurnýjun á listanum.  Þeir sem höfðu hvað mesta reynslu af bæjarstjórnamálum, buðu sig ekki fram til forystu.  Það var ákveðið að forvalið yrði leiðbeinandi en ekki bindandi. Sú nálgun gerði það að verkum að fleiri ákváðu að vera með í forvalinu og tóku alls 20 þátt í því og vorum við nokkur sem gáfum kost á okkur í efstu sætin.  Það var síðan ákveðið að birta niðurstöður forvalsins á vefsíðu Héraðlistans um leið og úrslit yrðu ljós.

Niðurstaða forvalsins var sú að ég fékk flest atkvæði í fyrsta sætið og Sigrún Blöndal fékk flest atkvæði í fyrsta og annað sætið. 

Uppstillinganefnd tók svo til starfa og hafði til hliðsjónar niðustöðu úr forvalinu. Uppstillinganefnd kom með þá tillögu að við Sigrún hefðum sætaskipti á listanum.  Rök nefndarinnar voru þessi:

Úrslit forvalsins:

Sigrún fékk yfirburðakosningu í efstu sæti listans. Fyrir fyrstu 9 sætin var útkoma tveggja efstu í þessum hlutföllum.

 11-21-31-41-51-61-71-81-9
Sigrún Blöndal28%73%79%80%80%82%83%83%83%
Tjörvi Hrafnkelsson33%43%58%71%73%74%75%77%79%

Eins og sést á þessum tölum þá fær Sigrún gríðarlega góða kosningu í fyrstu tvö sætin og svo jafnast þetta út þegar komið er að fjórða sætinu. Þannig að ég fæ mjög góða kosningu ef litið er á efstu fjögur sætin.

Kona í oddvitasæti:

Það lá nokkurn veginn fyrir að það yrði enginn kona í oddvitasæti framboðanna á Fljótsdalshéraði . Önnur framboð voru búin að velja sína lista og enginn kona hafði boðið sig fram til forrystu. Í þessari staðreynd láu ákveðinn tækifæri, því það er ákveðinn krafa og væntingar til þess að áhrifa kvenna gæti meira í sveitastjórnmálum á Íslandi.

Tillaga send nefndinni:

Nefndin tók einnig fram að ég hefði sent þeim bréf samhljóma ofangreindum tillögum sem hefði stutt þau í að leggja þetta til. Þetta bréf skrifaði ég þeim eftir að velt fyrir mér tölfræðinni í niðurstöðum forvalsins og styrkleikum þess að hafa konu í efsta sæti listans.

Það má vera að nefndin hefði hvort sem er lagt til að við hefðum sætaskipti, enda eðlilegt mat útfrá niðustöðum forvalsins.  Ástæðan fyrir því að ég rek þessar staðreyndir hér, er sú, að ég hef fengið á mig talsvert að spurningum sem varða oddvitasætið og þá afhverju ég sit ekki í því. Spurningar eins… …af hverju varstu færður niður um sæti?  …varstu látinn lúffa fyrir konu? … ertu ekki ógeðslega fúll yfir þessu?   Osfrv.  Ofangreindar upplýsingar svara þessum spurningum.

Ég er því mjög ánægður með uppröðun listans og það er mín sannfæring að það styrki framboð Héraðslistans mjög að Sigrún Blöndal skuli leiða listann.

Ég tel jafnframt að við séum með mjög vel mannaðann og samheldinn lista sem getur náð góðum árangri í komandi sveitastjórnarkosningum!