Þjóðvegur 1

Það hafa átt sér stað nokkur skrif um legu Þjóðvegar eitt á Austurlandi upp á síðkastið. Þær hófust með bókun bæjarráðs Fjarðarbyggðar og svo í kjölfarið bókun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. Í kjölfarið skrifaði Esther Ösp Gunnarsdóttir bæjarfulltrúi Fjarðarlistans grein í Auturgluggann 23 júlí, á vef Fjarðarlistans og sinn vef, þar sem hún færir rök fyrir flutningi þjóðvegar 1 um Suðurfjarðarveg og Fagradal. Greinin er á margan hátt vel unnin, þar sem hún hefur aflað sér gagna um umfjöllunarefnið og vísar í heimildir, auk þess sem hún spyr spurninga. Hún dregur þetta svo saman í niðurstöðu sem réttlætir skrif greinarinnar sem bæjarfulltrúa í Fjarðabyggð. Hennar niðurstaða er að þjóðvegur 1 skuli liggja um Fagradal og firði.

Andrés Skúlason Djúpavogi svarar grein Estherar í Austurglugganum 30 júlí. Þar fer hann yfir nánast alla þá þætti sem Esther lagði fram og dregur fram þau atriði sem ekki komu fram í grein Estherar, t.d. núverandi stöðu á uppbyggingu á Axarvegi og þá staðreynd að vegfarendur munu alltaf nýta sér þennan veg, jafnvel þó þjóðvegur 1 yrði færður.

Eiður Ragnarsson er með nýlegt blogg um þessi mál og kallar eftir málefnalegri umræðu. Hann hefur verið duglegur að tjá sig um þetta mál í gegnum tíðina bæði í bloggheimum og á öðrum vettvangi.

Þjóðvegur 1 liggur nú yfir Breiðdalsheiði um Skriðdal og hefur umræða um flutning á honum ekki farið formlega fram nema hjá kjörnum fulltrúum í Fjarðabyggð. Umræða um uppbyggingu á Axarvegi hefur því ekkert með þjóðveg 1 að gera, heldur fyrst og fremst aukna þjónustu við vegfarendur. Í matsáætlun um Axarveg er farið yfir faglega þætti sem snúa að Axarvegi og hollt fyrir alla sem hafa skoðun á þessum málum að lesa þá skýrslu. Þar er t.d. 30 spurningum frá Ásmundi Ásmundssyni á Reyðarfirði sem er svarað af vegagerðinni. 

Önnur gögn sem vert er að skoða í þessari umræðu eru listuð hérna neðst og skora á sem flesta sem vilja hafa skoðanir á þessum málum að lesa í gegnum þessar greinar og gögn. Ef menn hafa upplýsingar um fleiri gögn eða umræður, þá má gjarnan setja inn athugasemdir til að ég geti bætt þeim í listann.

Ég hef sjálfur ekki tekið beinan þátt í þessari umræðu eða setið fundi þar sem þetta hefur verið rætt, því þarf ég að treysta á unninn gögn um málið. Hinsvegar hef átt í skoðanaskiptum um þetta mál og þar liggja rök með og á móti. En í mínum huga er uppbygging Axarvegar og færsla á þjóðvegi 1 sitthvort málið.

Það er hinsvegar bæjarráð Fjarðabyggðar sem hefur þessa umræðu þetta kjörtímabilið og því eðlilegt að spyrja hvaða verkefni var á þeirra borði sem kallaði á úrlausnina „Færa skal þjóðveg 1 um Fagradal og firði”. 

Það fyrsta sem manni dettur í hug er að það sé verið að svara yfirlýsingum sem frambjóðendur hafi látið frá sér fara í kosningabaráttunni og því sé í raun ekkert raunverulegt verkefni á bak þetta annað en bregðast við því. 

Önnur spurning sem gæti kallað á þessa úrlausn gæti verið:  Hvernig nær Fjarðabyggð í opinbert fjármagn til að koma á lagfæringum á vegasamgöngum innan Fjarðabyggðar?

Hér vísa ég ég blogg frá Eiði Ragnarssyni þar sem hann vísar í tillögu sem hann og Andrés Elísson komu með á aðalfundi SSA 2006, sem hljóðar svona: “Setjum þá peninga sem ætlaðir eru í endurbætur á Breiðdalsheiði í Axarveg og færum þjóðveg eitt niður um firði. “ Þetta átti víst að vera málmiðlunartillaga!  En miðað við þetta, þá gæti þetta verið verkefnið, þ.e.a.s. finna fjármagn til vegabóta innan Fjarðabyggðar.

Verkefnið gæti líka verið þetta: Hvernig er hægt að auka umferð ferðamana og annarra vegfaranda um Fjarðabyggð, með það markmið að byggja upp og nýta þjónustu sem þar er í boði?

Það hafa verið færð fyrir því einhver rök að það eitt að færa þjóðvegsnúmerið gæti bætt þjónustuframboð og nýtingu þjónustunnar. En hvaða fordæmi hefði þetta fyrir önnur sveitarfélög í landinu sem ekki skera þjóðveg 1? Væri ekki alveg eins hægt að taka sambærilegt verkefni upp í bæjarráðum Ísafjarðar eða Húsvíkur og fá sambærileg svör um að færa skuli þjóðveg 1 í gegnum þau byggðarlög til að auka þjónustustigið?  Það er allavega langsótt í mínum huga að fara fram á færslu þjóðvegar til að auka þjónustustig eins sveitarfélags, þó að Esther reyndar geri það í sinni grein.

Líklegasta verkefnið á borðinu hlýtur að hafa snúið að heildarhagsmunum Austurlands:

Með hvaða hætti er hægt að tryggja sem best þjónustu við vegfarendur á öllu Austurlandi, m.t.t. öryggis, umferðarþunga, styttingar, vetrarþjónustu, osfrv.?

Ef þetta er verkefnið, þá er þetta væntanlega verkefni sem getur legið inn á borði allra sveitastjórna á Austurlandi, ekki bara Fjarðabyggðar.  Bókanir bæði Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs gefa báðar til kynna að öryggismál sé í forgang. En að besta svarið við henni sé færsla á þjóðvegi 1, get ég ekki komið auga á í fljótu bragði og þó búin að rýna talsvert í þau gögn sem eru aðgengileg. Því ef þetta snýst um öryggi vegfaranda, þá er þjóðvegur eitt raunar aukaatriði í umræðunni. Það mun þurfa að bæta veginn yfir Öxi vegna öryggissjónarmiða, því hann mun alltaf verða mikið notaðar, alveg sama hvað vegurinn um firði verður lagaður mikið og breytt um vegnúmer.

Ég get verið sammála Eiði Ragnarssyni í niðurlagi á bloggi sínu, þann 31 júlí, þar sem hann leggur til að það unnið verði hlutlaust að þessum málum.  Ég mun allavega styðja þannig nálgun til að fá sanngjarna og réttláta niðurstöðu sem hægt er að vinna eftir á markvissan hátt.

Það má reyndar líka hugsa sér að vinna önnur stór verkefni með sömu nálgun. Til dæmis staðsetning Fjórðungssjúkrahúss til framtíðar. Hvar er það best staðsett með tilliti til öryggis? Það er ekki síður brýnt hagsmunamál fyrir alla á austurlandi!

———————————————————————————— 

Gögn og umræður um málið:

Blogg – Esther Ösp Gunnarsdóttirhttp://www.raudhausar.com/esther/?p=3137 
Blogg – Eiður Ragnarssonhttp://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/445221/
http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/137227/
http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/21685/
http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/522205/http://eirag.blog.is/blog/eirag/entry/1081209/
Vegagerðin – Hæð vega yfir sjóhttp://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/yfir_sjo/$file/Yfir_sjo.pdf
Vegagerðin – Matsáætlun um Axarveghttp://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Axarvegur_Mau_2008.06.05_Tillaga/$file/Axarvegur%20939-01_M%c3%a1u_2008.24.11_Tillaga%20a%c3%b0%20mats%c3%a1%c3%a6tlun.pdf
Vegagerðin – Meðaltöl um keyrslu á vegum                                                  http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/umferdin/umfthjodvegum/
Vegagerdin – Upplýsingar um vegalengdir milli staðahttp://www.vegagerdin.is/vegakerfid/vegalengdir/
Skýrsla um styttingu þjóðvegar 1 í Húnaþingihttp://www.rha.is/static/files/Rannsoknir/2006/Skyrsla_loka_hunathing.pdf
Bókun Bæjarráðs Fjarðabyggðarhttp://fjardabyggd.is/Stjornsysla/Fundargerdir/Sjananar/199-fundur-baejarrads
Bókun Bæjarráðs Fljótsdalshéraðshttps://fundagatt.fljotsdalsherad.is/meetingsearch/DisplayMeeting.aspx?id=201006001F
Síminn – Upplýsingar um símasabandhttp://www.siminn.is/einstaklingar/netid/dreifikerfid/
Samgönguáætlunhttp://www.althingi.is/altext/138/s/pdf/0973.pdf